Geitungabú fjarlægð

Geitungar eru félagsskordýr og eiga sér nána ættingja sem flestir kannast við. Þar á meðal eru býflugur, humlur og maurar sem lifa í samfélögum eins og geitungarnir.  Fjórar tegundir hafa numið hér land og eru það húsageitungar, holugeitungar, trjágeitungar og roðageitungar.  Þeir tilheyra ættbálki æðvængna og af þeim eru þekktar 800 tegundir í heiminum. 

Það hefur reynst best að fjarlægja geitungabú að kvöldi til og er lagt til að farið sé varlega í kringum búin og reyna eftir fremsta megni að forðast stungur því að enginn þekkir viðbrögð sín að óreyndu. Sumir hafa ofnæmi fyrir efnum í eiturvökvanum, einkennin eru oftast væg en í örfáum tilvikum heiftarleg og jafnvel banvæn.  Í flestum tilfellum er aðferðin sú að „svæfa“ búið úr hæfilegri fjarlægð með því að notast við svokallað geitungaspjót,  því næst er búið sett í poka og fjarlægt.  

Til fróðleiks má nefna að Kjarrsveifa (Syrphus torvus) líkir eftir útliti geitungs sér til varnar og er algeng í görðum okkar þar sem hún getur sveimað kyrr í loftinu líkt og geitungar gera. Hún er hinsvegar meinlaus með öllu og mjög gagnleg þar sem hún nærist á blaðlúsum í gróðrinum.

Vespubukkur (Clytus arietis) líkir einnig eftir útliti geitungs en það er meinlaus bjalla sem hefur verið að berast stundum með timbri frá nágrannalöndunum en hún hefur ekki náð að setjast að hér á landi.